Bæn dagsins af kirkjan.is: Guð, ljósið þitt lýsir mér á jörðu og á himni. Ljósið þitt upplýsir mig, orðið þitt leitar mín og tekur sér bústað í hjarta mínu. Þannig sendir þú mér anda þinn sem leiðir mig. Vert þú með okkur, svo að við séum með þér í dag og alla tíð. Amen.
Náð sé með ykkur og friður frá þríeinum Guði sem gefur okkur samastað í sér. Amen.
Hversu yndislegir eru bústaðir þínir,
Drottinn hersveitanna.
Sálu mína langaði til,
já, hún þráði forgarða Drottins,
nú fagnar hjarta mitt og hold
fyrir hinum lifanda Guði.
Jafnvel fuglinn hefur fundið hús
og svalan á sér hreiður
þar sem hún leggur unga sína:
ölturu þín, Drottinn hersveitanna,
konungur minn og Guð minn.
Sælir eru þeir sem búa í húsi þínu,
þeir munu ætíð lofa þig.
Sælir eru þeir menn sem finna styrk hjá þér
er þeir hugsa til helgigöngu (Sálm 84)
Þegar skoðuð eru gömul kort af Reykjavík, til dæmis kort Björns Gunnlaussonar „Reikjavík og kringumliggjandi pláts“ frá árinu 1834 sést að Seltjarnarnes náði alveg hingað í Fossvoginn og alla leið að Elliaðám. Austast, ofan við Elliðaárnar er bærinn Bústaðir og einnig sést bæjarheitið Digranes. Á þessu korti er Reykjavík bara víkin við Arnarhól eða Arnarholt eins og stendur á kortinu.
Réttarholtið dró nafn sitt af rétt sem var staðsett hér á holtinu sem teygir sig frá Elliðaám í austri að Öskjuhlíð í vestri. Sogamýrin, nú Miklabraut, og Fossvogurinn afmarka holtið í norðri og suðri. Stundum var þetta holt kennt við bæinn Bústaði og kallað Bústaðaholt enda heitir hverfið Bústaðahverfi.
Og hér erum við stödd í Bústaðakirkju. Bústaðir. Fátt, ef nokkuð, vitum við um fólkið sem hér átti heima, öld fram af öld. Hér á Bústaðaholtinu, Réttarholtinu, var stundaður búskapur, það vitum við. Og hingað komu bændur og búalið víðar að til að finna sínar kindur þegar réttað var á holtinu. Ólíkt var hér um að litast, þá og nú. En hér erum við og heyrum lesinn enn eldri texta um bústað: Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín.
Bústaður þýðir auðvitað heimili, hýbýli fólks sem hefur sett niður bú sitt á ákveðnum stað. Hér bý ég, sögðum við kannski með stolti þegar fyrstu gestirnir komu í fyrstu íbúðina okkar. Hér bý ég – og mitt fólk, þegar svo bar undir. Hér búum við, hér er okkar bústaður.
Í Biblíunni er margoft talað um bústað Guðs. Þar er eiginlega tvennt sem ber hæst, nú eða þrennt, ef við viljum. Í fyrsta lagi er bústaður Guðs á himnum:
Lít niður úr þínum heilaga bústað, frá himninum, og blessaðu lýð þinn, Ísrael, og landið sem þú hefur gefið okkur eins og þú hést feðrum okkar, land sem flýtur í mjólk og hunangi (5Mós 26).
Í öðru lagi er bústaður Guðs þar sem nærvera Guðs er. Hebrearnir til forna trúðu því að Guð væri sérlega nálægur í sáttmálsörkinni þar sem steintöflurnar með boðorðunum tíu var að finna. Um þetta heyrum við til dæmis í annarri Konungabók:
Því næst fluttu prestarnir sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innsta herbergi hússins, í hið allra helgasta, undir vængi kerúbanna... Ekkert var í örkinni annað en steintöflurnar tvær sem Móse hafði sett í hana við Hóreb þegar Drottinn gerði sáttmála við Ísraelsmenn eftir brottför þeirra frá Egyptalandi.
En svo bar við þegar prestarnir gengu út úr helgidóminum að ský fyllti musteri Drottins. Gátu prestarnir ekki gegnt þjónustu sinni fyrir skýinu því að dýrð Drottins fyllti musteri Drottins (1Kon 8).
Skýið er í Gamla testamentinu sérstakt tákn fyrir nærveru Guðs og dýrð. Skýið sem fyllti musterið merkir að Guð er nálægur á sérstakan hátt. Því sáttmálsörkin sem hafði verið í samfundatjaldinu í eyðimörkinni og síðan á vergangi átti nú heimili í musterinu sem Salómon konungur byggði í Jerúsalem. En samt segir Salómon:
Nú hef ég byggt þér veglegt hús,
eilífan bústað.
Býr Guð þá í raun og veru á jörðinni? Nei, jafnvel
himinninn og himnar himnanna rúma þig ekki, hvað þá þetta hús sem ég hef byggt.
Gefðu gaum að ákalli þjóns þíns og bæn hans, Drottinn Guð. Heyr ákallið og
bænina sem ég, þjónn þinn, ber fram fyrir þig í dag.
Lát augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt, þeim stað sem þú hefur sagt um: Þar skal nafn mitt búa. Heyr bænina er þjónn þinn biður á þessum stað. Er þjónn þinn og lýður þinn, Ísrael, biður og snýr í átt til þessa staðar, heyr ákall hans. Hlustaðu á það í himninum þar sem þú býrð. Heyr það og fyrirgef.
Þannig að þó nærvera Guðs sé í einhverri merkingu í helguðu rými safnaðarins geta auðvitað engin hús rúmað Guð. Ekki einu sinni himininn og himnar himnanna, alheimurinn, geimurinn, ekkert rúmar Guð.
Samt er það sem stærstu og víðustu hugtök rúma ekki einmitt staðsett í hinu minnsta. Því í þriðja lagi er bústaður Guðs í okkur sem lifum í Jesú nafni, eins og Jesús segir:
„Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. ...
Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður (Jóh 14).
Sem sagt: Guð, sem engin mannleg skilgreining rúmar, kemur og gerir sér bústað hjá okkur í sínum heilaga anda. Guð, sem er handan veruleikans eins og við þekkjum hann, er einmitt hér, í okkar eigin veruleika. Guð er hér, hér hjá þér og mér. Við erum þessi tjaldbúð, þetta samkomutjald, þetta musteri, þessi borg, þetta fjall, sem Biblían talar um:
Elfur kvíslast og gleðja Guðs borg,
heilagan bústað Hins hæsta.
Guð býr í henni miðri, hún bifast ekki,
Guð hjálpar henni þegar birtir af degi (Sálmur 46).
Þess vegna segir Páll postuli (Ef 2):
Þess vegna eruð þið ekki framar gestir og útlendingar heldur eruð þið samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs. Þið eruð bygging sem hefur að grundvelli postulana og spámennina en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini. Í honum tengist öll sú bygging saman, vex og verður heilagt musteri í Drottni. Með honum eruð einnig þið sambyggðir til andlegs bústaðar handa Guði.
Við erum heimafólk Guðs, andlegur bústaður Guðs, við sem eigum heima hér í Bústaðakirkju. Við erum þessi bygging sem hýsir Guð, samtengd og samvaxin í Jesú Kristi. Við, sem í veikleika okkar þiggjum að kraftur Krists taki sér bústað í okkur (2Kor 12), eigum í hjarta okkar það sem engin bygging rúmar og jafnvel ekki alheimurinn sjálfur. Í okkar takmarkaða veruleika býr Veruleikinn sjálfur, í okkar litla lífi Lífið sjálft. Því Guð gaf anda sínum bústað í okkur (Jak 4), og mætti sínum veitir Guð farveg í gegn um okkar vanmátt. Þvílíkt undur að fá að taka þátt í því!
Eins og fólkið sem bjó á þessum slóðum, mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð og er nú öllum gleymt, horfið, flogið í veg, þannig fer einnig fyrir okkur. Við erum dægurfluga, andartak í eilífðinni, svo ósköp smá. En samt erum við, eins og þau sem á undan okkur gengu, hluti af stærsta undri veraldar, líf af lífi.
Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó
gleymir Guð engum þeirra. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Óttist
ekki, þér eruð meira verðir en margir spörvar (Lúk 12).
Kæri söfnuður Bústaðakirkju. Við erum fólk á ferð um lífið. „Þú átt hvergi heima nema veginum á,“ syngur KK í Vegbúanum sínum. Mörg okkar hafa búið hér og þar, á höfuðborgarsvæðinu, um landið vítt og breitt, í útlöndum. Önnur hafa kannski alltaf búið á sama stað eða svipuðum slóðum. Óháð því getur angur hjartans komið í veg fyrir að við finnum okkur heima, jafnvel í okkar eigin skinni. Hvernig svo sem því er háttað erum við heimafólk Guðs. Hver sem bústaður okkar er getum við fundið bústað Guðs í okkur, nærveru Guðs í hjartanu sem fylgir okkur hvert sem við förum og hvar sem við erum.
Og saman á söfnuðurinn þetta fallega Guðs hús, sem við köllum svo, helgað og vígt til þjónustu við Guð og fólkið sem hingað leitar í sorg og gleði. Bústaðakirkja er heimili safnaðarins og heimili Guðs. Við biðjum Guð að blessa öll þau sem gengin eru veg allrar veraldar og að vísa okkur veginn áfram. Og við biðjum Guð á himni og jörðu að eiga sér bústað í okkar hjarta svo að við getum verið öðrum það skjól og sú hlýja sem Guð er okkur, heimili kærleikans innra með okkur.
Drottinn, ég elska húsið sem er bústaður þinn
og staðinn þar sem dýrð þín býr.
Fótur minn stendur á sléttri grund,
ég vil lofa Drottin í söfnuðinum (Sálm 26)
Fyrri ritningarlestur: Esk 37.26-28
Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli
við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla
framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð
mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur
minn verður ævinlega á meðal þeirra.
Síðari ritningarlestur: 1Pét 4.7-11
En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt
hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda.
Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið
náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar
náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi
máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist.
Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.
Guðspjall: Jóh 15.26-16.4
Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út
gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því
þér hafið verið með mér frá upphafi.
Þetta hef ég talað til yðar svo að þér
fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver
sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir
þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér
minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.