Trítlandi tár

Trítlandi tár

Að hætti postulans Jóhannesar í pistli dagsins þá tók Tómas vitnisburð lærisveinanna gildan um að Jesú væri upprisinn en vitnisburður Guðs í Jesú Kristi reyndist honum meiri sem leyfði honum að kanna sáramerki sín.

Kristur er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn. Gleðilegt sumar kæru áheyrendur, nær og fjær.Ég man þegar mamma sat á rúmstokknum mínum á kvöldin og sáði trúarfræjum í hjarta mitt sem tóku að bera ávöxt þegar fram liðu stundir.  Ég man líka eftir því þegar ég söng jólasálmana í jólamessu í safnaðarheimili Langholtskirkju í bláu madrósafötunum mínum sem ég var svo stoltur af. Mamma sagði að ég hefði staðið á kirkjubekknum meðan á því stóð. Hún komst þar við og dáðist að litla drengnum sínum syngjandi á kirkjubekknum.  Já, trúarfræin báru ávöxt og hér stend ég áratugum síðar og get ekki annað.

Mér er mikið niðri fyrir því að Kristur er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn.          Ég lít til baka með ykkur og fer yfir farinn veg og hugsa til þeirrar stundar þegar Kristur knúði aftur dyra hjá mér á vormánuðum 1980 í Englandi. Þá mætti ég Jesú og hreifst af honum. Þá trítluðu tárin niður kinnar mér þegar ég kraup við altarið í Westminster Abbey  og þakkaði honum fyrir þessa fallegu gjöf að bænheyra mig.  Þá varð hann lifandi í hjarta mínu. Síðan hefur hann verið förunautur minn á sorgar og gleðistundum í lífi mínu.

Það var langt um liðið síðan ég hafði síðast gefið honum gaum. Jú það var þegar ég var fermdur í Fríkirkjunni í Reykjavík vorið 1973 en þá hrósaði kvenfélagskonan mér í hástert fyrir að hafa sagt hátt og skýrt JÁ, þegar presturinn spurði hvort ég vildi gera Jesú Krist að leiðtoga lífs míns.  Þá vissi ég ekki hvað fyrir mér ætti að liggja í framtíðinni. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort Guð hefði þá þegar verið búinn að leggja línurnar að þessu leyti hvað mig varðar og vonast til að ég myndi uppgötva hver væri vilji sinn með mittt líf, að ég ætti að vígjast til prestsþjónustu í þjóðkirkju íslands.  Þá hef ég jafnharðan hugsað til þess að það sé stutt í hrokann hjá mér og stærilætið með því að hugsa á þessa leið. Auðvitað var hann fyrst og fremst að vonast til þess að ég vildi vera hendur sínar og fætur í þessum heimi í trú, von og kærleika. Ég var minntur nýverið á þessa staðreynd þegar ég sá litla snjáða Kristsmynd á fésbókinni. Það vantaði hendurnar og fæturna á Krist. 

Spámaðurinn Jeremía minnir mig stundum á það að Guð hafi fyrirætlanir í hyggju með allt fólk.  Eitt af mínum uppáhaldsversum er að finna hjá honum og hljóðar svo ,,Því að ég þekki þær fyrirætlanir sem ég hefi í hyggju með yður,-segir Drottinn, -fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju,- að veita yður vonarríka framtíð.“  Snjáða myndin af Kristi minnti mig á það að hann  vill gjarnan að við samþykkjum að vera hendur hans og fætur í þessum heimi þar sem mannvonskan virðist svo oft ætla að ná yfirhöndinni. En vonin er ætíð til staðar vegna þess að það verður ætíð til fólk sem er tilbúið að færa miklar fórnir í þágu náunga síns að hætti Jesú Krists sem fórnaði sjálfum sér á krossinum til þess að við mættum lifa fyrir hann.

Þegar við tókum okkur stöðu undir krossi Krists á föstudaginn langa ásamt móður Jesú og fleira fólki þá fundum við til með honum og fólkinu hans. Engin orð ná yfir hina líkamlegu og andlegu þjáningu sem Jesús upplifði þá á eigin skinni og sálu. Og fólkið hans mæddist af sorg fram á þriðja dag. Lærisveinahópurinn tvístraðist um allar grundir og fór í felur bak við luktar og læstar dyr því að þeir hugðu að þeirra biðu sömu örlög og Jesú ef þeir könnuðust við það að vera á mála hjá honum.  Þeir voru sennilega allir í fullkominni afneitun að hætti Símonar Péturs.  Hvikult er geð fólks. Við minnumst mannfjöldans sem hyllti Jesú á pálmasunnudag er hann reið á asna inn um hlið Jerúsalem borgar en útmáði hann síðan degi síðar eða svo og hvatti til þess að hann yrði krossfestur. Já, mannnfjöldinn drýgði þar mikla synd. Sundrungin varð algjör milli fólksins og Guðs á þessum langa föstudegi.

En þegar Jesús gaf upp andann þá segja guðspjöllin frá því að jarðskjálfti hafi riðið yfir og fortjaldið að hinu allra helgasta reit í musterinu rifnaði. En þangað máttu aðeins prestarnir koma, ekki almenningur. Og myrkur varð um allt land þótt dagur væri.

Það var búið um lík Jesú að gyðinglegum hætti og fékk hann gröf með ríkum. Spurst hafði út að lærisveinarnir ætluðu að stela líkinu til að geta sagt að Jesú væri risinn upp frá dauðum. Því voru verðir settir við gröfina til að gæta hennar.

En Guð þurfti ekki lærisveinana til að fjarlægja líkið úr gröfinni. Í Matteusarguðspjalli er greint frá því að árla hinn fyrsta dag vikunnar um sólarupprás hafi jarðskjálfti riðið yfir og engill Drottins hafi komið niður frá himni og velt steininum frá grafarmunnanum. Hann tilkynnti viðstöddum að Jesú væri ekki lengur í gröfinni. Hann væri upprisinn frá dauðum. Þau ættu að fara til Galileu þar sem þau myndu sjá hann.

Fyrir benjar Jesú urðum við heilbrigð. Jesús þjáðist í okkar stað. Fyrir vikið getur hann sett sig í okkar spor þegar við erum að glíma við þjáninguna með ýmsum hætti. Þá finnur hann til með okkur og sýnir okkur samkennd og stuðnng. Mér er í þessu sambandi hugsað til þeirra sem glíma við margvíslega sjúkdóma, barna og ungmenna. Og mér er líka hugsað til fólks sem þjáist af öðrum orsökum, ekki síst ofbeldi.  Öllu þessu fólki sýnir Jesús samkennd. Hann er með því í þjáningu þess.

Við skulum fara að dæmi Jesú og taka okkur stöðu með öllum sem þjást. Við skulum aldrei sitja hjá eða láta sem ekkert sé ef við verðum vör við að fólk sé beitt mannvonsku.

Fyrir Jesú blóð eigum við aðgang að hinu allra helgasta, Fyrir Jesú blóð hefur hann brúað bilið milli Guðs föður og okkar syndugs fólks. Það ríkir ekki lengur sundrung milli okkar og Guðs. Fyrir Jesú blóð er orðið greiðfært fyrir okkur að föðurhjarta Guðs. Rifið fortjaldið að hinu allra heilagasta í musterinu er til marks um það.  En  fyirr bænina getum við hvílt við föðurhjarta Guðs og opnað hjörtu okkar um allt sem hvílir á okkur. Hann heyrir allar bænir og hann er sá Guð sem fyrirgefur flestar syndir að mínum dómi. Það er dásamlegt fyrirheit.

Við virðum fyrir okkur opna og tóma gröfina, líkblæjurnar eru á bríkinni, stóri steininn úti fyrir liggur við grafarmunnann. Kristur er farinn úr gröf sinni upprisinn til fundar við mig og þig líkt og hann gerði þegar hann fór til fundar við lærisveinana. Hann gekk þá í gegnum læstar dyr og friðmæltist við þá og sýndi þeim sáramerkin á fótum sínum og höndum til að þeir þekktu hann aftur. Og síðan sendi hann þá út á meðal fólks til að fyrirgefa því syndirnar í nafni sínu. Að viku liðinni hitti hann þá aftur bak við læstar dyr. Þá var Tómas, efasemdamaðurinn í hópi lærisveinanna, með þeim. En hann hafði sagt ,,Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“ Jesús leyfði honum að rannsaka sig með þessum hætti og Tómas sagði síðan til marks um að hann þekkti Jesú. ,,Drottinn minn og Guð minn.“

Að hætti postulans Jóhannesar í pistli dagsins þá tók Tómas vitnisburð lærisveinanna  gildan um að Jesú væri upprisinn en vitnisburður Guðs í Jesú Kristi reyndist honum meiri sem leyfði honum að kanna sáramerki sín. Það er öllum hollt að glíma við efasemdir þegar stærstu spurningar lífsins eru annars vegar líkt og Tómas gerði, því að þær kalla á fleiri spurningar og fleiri svör. Við fáum aldrei einhlít svör við öllum spurningum lífsins því að það eru tvær hliðar á hverjum pening. Og svo er líka kantur á öllum myntum.

Í lexíu þessa Drottins dags fjallar spámaðurinn Jesaja um blindar þjóðir sem þó hafa augu og heyrnarlaust fólk sem þó hefur eyru.  Allar þessar þjóðir eiga að bera vitni um að Drottinn sé sá sem hann er, enginn guð hafi verið myndaður á undan honum og eftir hann verði enginn frelsari til nema hann.

Læstar dyr eru víða í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Þar eru um að ræða úti og innidyr að heimilum okkar,  dyr að útihúsum svo sem fjárhúsum, dyr að kirkjum og safnarheimilum.  Það er líka hægt að tala um læstar dyr að fjárhirslum. Margur maðurinn heldur fast um lykla að sínum fjárhirslum í kjölfar sölu hluta í íslandsbanka nýverið. Þetta er aumasti hégómi að mínum dómi að láta myntina vinna fyir sig yfir nótt því að á líkklæðunum eru engir vasar. Aumasti hégómi segi ég að hætti Prédikarans í gamla testamentinu.

Það er líka hægt að tala um læstar dyr þegar hjörtu okkar eru annars vegar. Það á kannski best við í samhengi lexíunnar, pistilsins og guðspjallsins. 

Mér kemur í huga mynd af snjáðri ljósgeislamynd af  Kristi sem heldur á ljóskeri og stendur við dyr sem vafðar eru vafningsjurtum til marks um það að þær hafa ekki verið opnaðar árum saman. Athygli vekur að það er enginn snerill á utanverðum dyrunum. Það er vegna þess að snerillinn snýr við okkur á innanverðum dyrunum. Það er okkar á ljúka upp fyrir konungi dýrðarinnar.  En auðvitað væri Kristi í sjálfsvald sett að ganga bara í gegnum þessar læstu dyr og friðmælast við þig og mig. Eftir sem áður þá stendur hann okkur nær en við höldum yfirleitt. Hann er hjá okkur í anda sínum, andar á okkur eins og segir frá í guðspjalli dagsins og segir: ,,Meðtakið heilagan anda.“

Drottinn minn og Guð minn, sagði lærisveinnin Tómas til marks um að hann þekkti Jesú aftur eftir upprisuna. Hann trúði því að Jesú væri hjá sér í holdi. 

Þá varð Jesú líka lifandi í hjarta hans og líkt og ég upplfiði sjálfur forðum daga í Englandi í apríl 1980.  Þessi er líka reynsla kynslóðanna. Þegar við tökum á móti Jesú í hjörtu okkar þá á sér stað ný fæðing, við verðum ný sköpun í Jesú Kristi. Við verðum börn sólarupprásarinnar, börn vonarinnar og leitumst þá við að feta í fótspor meistarans í trú, von og kærleika. Þá opnar Guð augu okkar og eyru fyrir neyð náungans, já augu og eyru íbúa þjóða heimsins.

Á samskiptamiðlum verðum við  vitni að stórkostlegu hugrekki og samtakamætti Úkraínsku þjóðarinnar gegn grimmdarlegu og svívirðilegu framferði rússneska árásarhersins og við íslendingar höfum opnað faðminn fyrir flóttafólki frá Úkraínu og boðið þeim að búa hér í friði og öryggi í kristilegum anda. Við íslendingar sjáum neyðina og bregðumst við neyðarbeiðnum um hjálp með viðeigandi hætti.

Ég horfði á kvikmynd með Brat Pitt í sjónvarpinu á laugardagskvöld. Þar fæddi kona barn undir berum himni í sprengjuregni. Þá varð mér hugsað til sjúkrahúsa í Úkraínu, t.d. í Maríupol, þar sem konur hafa fætt börn í sprengjuregni.  Þrátt fyrir að jörð sé sviðin víða í Úkraínu um þessar mundir og Mariupol rústir einar þá minnir sérhver fæðing okkur á vonina um að lífið sigri dauðann í öllu sínu veldi um síðir.

Tími lægðanna er að baki hér á landi og lífríkið í sverðinum er að taka við sér. Ánamaðurinn vellur út úr silungnum víða um land um þessar mundir. Krókusarnir blómstra sem aldrei fyrr í húsagörðum og páskaliljurnar kinka kolli til okkar og breiða út krónur sínar á móti sólargeislunum líkt og þær vilji blessa sólina í öllu sínu veldi.  Já, fuglarnir eru líka yndislegir vorboðar á landinu okkar kalda

Í lok guðsþjónustunnar syngjum við sálminn ,,Lofa sál mín, lofa Drottinn", eftir Sigurbjörn Einarsson biskup Þar minnir hann okkur á að allt fólk á jörðinni lifir undir lögmáli lífs og dauða. Þar eru þessi vers að finna:

Mannlegt eðli þitt hann þekkir,

þú ert moldarstrá og blóm,

fætt í gær og fölt á morgun,

fokið, gleymt sem dust og hjóm.

Drottinn man þig, Drottinn opnar

dýrðar sinnar helgidóm.

 


Vakna, lifna, lífið kallar,

ljóssins ríki frelsarans,

bróðurfórnin brúað hefur

bilið milli Guðs og manns.

Opna hjartað, elska, þjóna

anda, vilja, kærleik hans.

Guð hefur  gefið okkur fyrirheit um vorsins veldi, sumar sem er vermt af honum sem er sólnanna sól, sumar sem ekkert auga leit og ekkert eyra heyrði og ekki kom upp í huga nokkurs manns, þegar Guð þerrar tárin af augum okkar og ríki fyrirgefningarinnar lýsir og ríkir. Við biðjum góðan Guð að gefa þá vorsins von og trú í Jesú nafni. Amen.

sr Sighvatur Karlsson  flutti þessa prédikun í útvarpsmessu í Breiðholtskirkju 1 sunnudag eftir páska 2022

Textar ..  Jesaja  43: 8-13    1. Jóh. 5. 4-12      Jóh. 20. 19-31