Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig. Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Jh 14.23-27Gleðilega hátíð.
Á hvítasunnudag kom heilagur andi yfir lærisveina Jesú og kirkjan var stofnuð. Helgur andi og kirkjan eru bundin órjúfanlegu bandi. Hér í samfélaginu mitt á meðal okkar er heilagur andi að verki. Við erum kirkja af því að andi Guðs sameinar okkur. Þess vegna eru börnin borin til skírnar, þess vegna fermast börnin, játast Jesú Kristi sem leiðtoga lífsins og staðfesta sína trú. Og við göngum til altaris og þiggjum brauð og vín sem eru hin jarðnesku tákn um heilagt samfélag okkar með Guði fyrir tilverknaðs andans.
Stundum verður fátt um svör þegar spurt er: Hvað er heilagur andi? Líkist hann jafnvel prestinum sem um var sagt að væri ósýnilegur alla daga nema á sunnudögum, þá væri hann óskiljanlegur? Víst er heilagur andi ósýnilegur og ekki verður hann reiknaður út með jarðneskum mælikvörðum, en máttug eru verkin hans. Um það vitnar þessi athöfn og þessi dagur. Núna er heilagur andi skiljanlegur. Það finnum við vel.
En umfram allt og það sem andi Guðs þráir að uppskera, er kærleikur, kærleikur sem fyllir gleði og von, kærleikur sem græðir, elur og nærir, kærleikur sem fellur aldrei úr gildi. Það er heilög vonin sem sameinar okkur öll í dag.
Og þetta er ekki síður dagur foreldra, afa og ömmu, ættingja og vina fermingarbarnanna. Barnið mitt er orðið svona stórt, að verða unglingur. Stoltið og hamingjan snertir hverja taug í þakklæti og hrifningu. Hugur minnist skírnarinnar, þeirrar helgu stundar þegar barnið var borið í ástríkum faðmi að heilögu vatni og aðstandendur upplifa nú svo innilega við skírnarathöfnina sem hér fór fram. Hvort sem er við skírnarlaug eða fermingu þá er það vonin um heillaríka framtíð sem umvefur huga og hjarta. Við erum samhuga í kærleika, von og trú sem nærist fyrir mátt heilags anda.
Og allt hefur sinn tíma, stað og stund. Það fann skjaldbökufjölskyldan vel sem ákvað að fara í lautarferð og halda sér veislu. Það tók níu mánuði að undirbúa ferðina. Eftir sex ár á ferðinni, þá var sest niður, mánuði tók að laga til í kringum sig áður en tekið var upp úr matarkörfunni. En þá kom í ljós að saltið hafði gleymst heima. Öll voru sammála um að ómögulegt væri að njóta veislu án salts. Eftir nokkrar vangaveltur var ákveðið að yngsta skjaldbakan skyldi send heim til þess að sækja salt. Hún samþykkti fúl í skapi að fara til baka að sækja saltið, en með því skilyrði að enginn skyldi byrja að borða fyrr en hún væri aftur komin. Þrjú ár liðu og ekki kom skjaldbakan. Fögur ár og svo voru árin orðin rúmlega þrettán frá þvi að ferðin hófst og ekki kom skjaldbakan til baka með saltið. Þá gafst næstelsta skjaldbakan upp og fór af taugum og sagði: “Ég get ekki beðið lengur. Ég er að drepast úr hungri” og byrjaði að fletta umbúðum utan af samloku. En í sömu andrá skreið yngsta skjaldbakan undan runna rétt hjá og hrópaði: “Sko. Ég vissi að þið mynduð ekki bíða. Ég ætla sko ekki að sækja saltið”.
Kæru fermingarbörn.
Þið eruð á ferðalagi, ferð um lífsins veg. Ég veit að þið hafið hlakkað til þessa dags í mörg ár. Oft hefur fermingin borið á góma á ykkar ferð. Þegar ég var að alast upp, þá sögðu foreldrar mínir gjarnan við mig þegar ég var að biðja um eitthvað: “Þú færð það kannski þegar þú fermist”. Fermingin er eins og miðpunktur, heilög áningarstöð á ferðinni um bernsku-og unglingsárin. Þið hafið verið að safna saman salti í veganesti lífsins, fylla í forða til að njóta í framtíðinni. Og nú setjumst við til borðs eftir rúmlega þrettán ára óþreyjufulla göngu. Fyrst hér við altarið þegar þið játist Jesú Kristi sem leiðtoga lífsins í fermingunni, svo hefst veislan hér í altarisgöngunni og heldur svo áfram í samfögnuði ættingja og vina.
Hefur eitthvað gleymst? Er öllum undirbúningi lokið? Þarf að senda einhvern til baka eftir kryddinu í veisluföngin? Er nóg af öllu? Ég veit að þetta eru raunverulegar spurningar sem mætt hafa á nánustu aðstandendum barnanna, okkur sem undirbúum athöfnina hér í kirkjunni og fermingarbörnunum sjálfum, ekki síst í fermingarfræðslunni í vetur. Er allt klárt? Er Guð örugglega líka með í för? Hún er sæl tilfinningin þegar öllum undirbúningi er lokið og við erum tilbúin að setjast niður og njóta, upplifa, samfagna. Þá finnum við vel hve heilagur andi blæs kærleiksríkum byr kröftuglega í hamingjuseglin. Þá er sannarlega blómleg uppskera.
Yngsta skjaldbakan sem send var heim eftir saltinu ákvað að plata, ögra og ráðskast með sitt nánasta fólk af því að hún kunni ekki að treysta og bjóst við hinu versta. Svo var hún bara löt og skorti virðingu gagnvart samferðafólki. Dæmi um slík samskipti úr samfélagi nútímans þekkja margir. Það er svo mikilvægt að hlúa að trausti og virðingu. Um það fjallar trúin, um það fjallar fermingin, að opna fermingarbörnunum leið að Guði, sem þau geta treyst í blíðu og stríðu á nákvæmlega sama hátt og aðstandendum er ætlað að leggja sig fram um að reynast barni sínu af trausti og trúnaði. Þetta er lífið sem heilagur andi vill glæða og fegra. Þess vegna eru börnin borin til skírnar og eiga síðar tímamót í áningarstað með Guði og samferðafólki í helgri fermingu, hvorki af ögrun né í plati, heldur af einlægri sannfæringu. Þá er allt klárt, tilbúið, heilagt.
Jesús Kristur sagði í guðspjallinu sem ég las: “Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum”. Þessi ritningarorð eru orð að sönnu á fermingardegi. Það er vonin, að orð Guðs megi verða fermingarbarni leiðarljós á ferðinni um lífsins veg. Guð sendir engan burt, sem til hans kemur, að sækja eitthvað sem á vantar. Hjá honum er allt. Það staðfestum við með því að koma til Guðs og gjöra okkur bústað hjá honum á tímamótum í áningarstað. Mikill er máttur heilags anda. Það finnum við sannarlega á fermingardegi í samfögnuði í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Amen.