Þann 7. maí árið 1940 urðu mikil tímamót í
kirkjumálum Reykvíkinga með lagasetningu frá Alþingi. Í stað þess að vera hluti
Kjalarnesprófastsdæmis þar sem tveir dómkirkjuprestar þjónuðu þjóðkirkjufólki,
varð til sérstakt prófastsdæmi, Reykjavíkurprófastsdæmi. Þrjú ný prestaköll
voru stofnuð, auk Dómkirkjuprestakalls: Hallgrímsprestakall,
Laugarnesprestakall og Nesprestakall. Íbúar voru þá tæplega fjörutíu þúsund og
mikill meirihluti tilheyrði þjóðkirkjunni.
Árið 1952 voru íbúar Reykjavíkur orðnir tæplega sextíu þúsund. Það ár voru stofnuð þrjú ný prestaköll með 4 sóknum; Bústaðaprestakall (skiptist í Bústaðasókn og Kópavogssókn), Háteigsprestakall og Langholtsprestakall. Tíu árum síðar, þegar íbúafjöldinn taldi rúm 75 þúsund, var ljóst að enn þurfti að fjölga, og haustið 1963 voru Ás- og Grensásprestaköll stofnuð með lögum sem tóku gildi 1. janúar 1964. Á þessu starfsári sem nú er að ljúka á Grensásprestakall því 55 ára afmæli.
Yngsti söfnuður, sem telst til
Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, Seltjarnarnessöfnuður, var stofnaður árið 1974,
og gerður að sérstöku prestakalli tólf árum síðar. En Reykjavíkurprófastsdæmi
var skipt í tvennt, eystra og vestra, fyrir bráðum þrjátíu árum.
Nú er þróunin í hina áttina. Sameina á prestaköll, bæði á Reykjavíkursvæðinu og um landið vítt og breitt. Engin lög þarf að setja því nú er ræður þjóðkirkjan sjálf sínu skipulagi. Fyrstu prestaköllin sem sameinast hér í prófastsdæminu eru Bústaða- og Grensásprestaköll frá og með 1. júní og heitir nýtt prestakall Fossvogsprestakall. Séra Pálmi Matthíasson, sóknarprestur í Bústaðaprestakalli frá árinu 1989, hefur verið skipaður sóknarprestur nýja prestakallsins. Sóknirnar, Grensássókn og Bústaðasókn halda sér með sínum sóknarnefndum og kirkjustarf verður áfram í báðum kirkjunum. Á næstu mánuðum verður auglýst eftir tveimur prestum til þjónustu í prestakallinu við hlið sóknarprestsins.
Sem fyrr segir var Grensássókn stofnuð í september 1963 og fyrsti sóknarpresturinn séra Felix Ólafsson (1963-1970) var vígður til starfa í desember það sama ár. Fyrst í stað voru guðsþjónustur haldnar í Breiðagerðisskóla en síðar í safnaðarsal í Miðbæ við Háaleitisbraut. Safnaðarheimili kirkjunnar var vígt árið 1972 og var notað sem kirkja safnaðarins allt fram til 8. desember 1996 að kirkjuhúsið sem við erum í í dag var vígt og tekið í notkun.
Þegar séra Felix flutti til Noregs fyrst og síðan Danmerkur kom séra Jónas Gíslason til þjónustu í Grensásprestakalli um nokkurra ára skeið (1970-1973). Séra Halldór Gröndal var sóknarprestur safnaðarins frá 1973 til starfsloka haustið 1997, í alls 24 ár. Séra Ólafur Jóhannsson tók síðan við af séra Halldóri. Nokkrir prestar hafa þjónað hér til lengri eða skemmri tíma, lengst líklega séra Gylfi Jónsson (1988-1994). Ég starfaði hér á námsárunum með séra Gylfa og séra Halldóri, spilaði á gítar í 10-12 ára starfinu, hafði umsjón með barnastarfi, kenndi fermingarbörnum og prédikaði, og var það lærdómsrík og ánægjuleg reynsla. Sem héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra þjónaði ég söfnuðinum hér af og til í fimmtán ár og svo óslitið frá 21. september 2017.
Og ekki má gleyma djáknunum. Örn Bárður Jónsson sem síðar vígðist til prestsþjónustu, vígðist sem djákni til Grensássafnaðar árið 1979. Halldór Elías Guðmundsson djákni starfaði hér í nokkur ár og nú hefur Daníel Ágúst Gautason verið kallaður af Grensássöfnuði til djáknastarfa og bíður vígslu.
...
Í dag eru tímamót. Grensásprestakall verður lagt niður á morgun og nýtt prestakall tveggja sókna verður til. Prestaköll eru ytra skipulag sem hægt er að haga með ýmsum hætti og tilheyra regluverki kirkjunnar sem kirkjuþing setur. Innra skipulagið eru söfnuðirnir, sóknirnar sem eru í höndum safnaðarfólks á hverjum stað.
Hér í Grensásprestakalli hefur verið gróskumikið starf í 55 ár, allt frá stofnun þess haustið 1963 sem gekk formlega í gildi 1. janúar 1964. Við getum glaðst yfir langri sögu, kraftmikilli boðun fagnaðarerindisins og snertingu anda Guðs, til dæmis á árum séra Halldórs Gröndals þegar Ungt fólk með hlutverk hafði samkomur sínar hér í safnaðarheimilinu sem þá var kirkjan. Messuþjónastarfið sem hófst hér í prófastsdæminu árið 2006 að frumkvæði séra Jóns Dalbú Hróbjartssonar, þá prófasts, hefur verið sérstaklega öflugt hér í söfnuðinum frá haustinu 2007 og sjálfboðin þjónusta almennt. Ótalin eru nöfn þeirra ótal mörgu sem hér hafa starfað í 55 ár, kvenfélagskonur, sóknarnefndarfólk, kirkjuverðir, sunnudagaskólakennarar og annað starfsfólk í barna- og æskulýðsstarfi, framkvæmdastjórar, kórfólk og tónlistarfólk og ýmiskonar alhliða samstarfsfólk. Við gleðjumst yfir störfum þeirra og þökkum af hjarta og biðjum góðan Guð að blessa minningu þeirra sem gengin eru á undan okkur inn í dýrð Guðs.
Og mest gleðjumst við yfir því að fá að vera samfélag um trú og í trú, samfélag sem á sinn upprisna og uppstigna frelsara á himnum við hægri hönd Guðs þar sem hann biður fyrir okkur, eins og segir í Rómverjabréfinu. Við biðjum með Páli postula að Guð sem hefur kallað okkur og verkar í okkur gefi okkur anda speki og opinberunar og upplýsi okkur, Guð sem lét allt koma fram í Kristi sem hann vakti og lét setjast sér við hægri hönd, Guð sem hefur lagt allt undir Krist og gefið hann kirkjunni.
Og við gleðjumst yfir því að fá að þekkja Jesú Krist upprisinn, að fá að sjá og trúa, við gleðjumst yfir því að vera líkami Krists, kirkjan, og fyllast af honum, Jesú sem er meðal síns fólks og lýkur upp huga okkar. Hann sem leið og reis upp sendir anda sinn, er með okkur, hefur upp særðar og heilagar hendur sínar og blessar okkur.
Og við gleðjumst yfir því að allt á að rætast, allar þjóðir að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefingu, að við megum skilja, prédika og vera vottar, vera kyrr frammi fyrir Guði, íklæðast krafti anda Guðs, falla fram og tilbiðja, lofa Guð stöðuglega í hjarta okkar og með framgöngu okkar í hvívetna.
Til þess er kirkjan, sama hvað prestakallaskipan líður, sama hvaða nafni presturinn eða djákninn nefnist, sama hvað við nú öll heitum og gerum, til þess er kirkjan að við séum í Kristi, Guði falin og glöð í þjónustunni hvert við annað. Til þess erum við kölluð og til þess lifum við að kraftur Guðs fái unnið sitt verk í okkar lífi og samferðafólksins.
Ritningarlestur: Ef 1.17-23
Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa ykkur anda
speki og opinberunar svo að þið fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sjón
hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til, hve ríkulega
og dýrlega arfleifð hann ætlar okkur meðal hinna heilögu og hve kröftuglega
hann verkar í okkur sem trúum.
En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn sem hann lét koma fram í Kristi er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar á himnum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld heldur og í hinni komandi. Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum sem sjálfur fyllir allt í öllu.
Guðspjall: Lúk 24.44-53
Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem
ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“
Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar. Og hann sagði við
þau: „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja
degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja
fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð vottar þessa. Ég sendi
ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist
krafti frá hæðum.“
Síðan fór hann með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði
þau. En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og
var upp numinn til himins. En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til
Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.