Sálmabók

121. Jesú, lífs míns lífið sanna

1 Jesú, lífs míns lífið sanna,
líf í dauða gafstu þitt,
þú af byrði þjáninganna
þreyttist svo mér verði fritt.
Þinn, ó, Jesú, dauði deyddi
dauða minn og skelfing eyddi.
Jesú, þér sé þakkargjörð
þúsundföld á himni' og jörð.

2 Saklaus varstu sekur dæmdur
sýkn að talinn verði ég,
bundinn milli fjenda flæmdur
frjáls að minn ég gangi veg.
Mér að verði sómi sýndur
sárum varstu þyrnum krýndur.
Jesú, þér sé þakkargjörð
þúsundföld á himni' og jörð.

3 Synda minna byrði barstu,
brotin lágu mín á þér,
hátt á krosstré hafinn varstu
himins til að lyftir mér,
faðminn út þú blóðgan breiddir
blítt að Guðs í skaut mig leiddir.
Jesú, þér sé þakkargjörð
þúsundföld á himni' og jörð.

4 Sál þín auðmýkt sýndi blíða,
sonur Guðs og blessað lamb,
að ég þurfi eigi' að líða
ótta' og smán mitt fyrir dramb.
Dauðastríð þú hlaust að heyja
hægt að veiti mér að deyja.
Jesú, þér sé þakkargjörð
þúsundföld á himni' og jörð.

5 Fyrir heitu hryggðartárin,
hjartakvöl og sálarneyð,
fyrir höggin, fyrir sárin,
fyrir krossins bitra deyð,
fyrir handa'og fóta meinin,
fyrir píslarþorsta kveinin,
Jesú, þér sé þakkargjörð
þúsundföld á himni' og jörð.

T Ernst C. Homburg 1659 – Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886
Jesus, du mit liv, min hälsa
L Sænskt lag 1697 – JH 1885
Jesus, du mit liv, min hälsa
Sálmar með sama lagi 594
Tilvísun í annað lag 155
Eldra númer 144
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is