Sálmabók

158. Minn Herra Jesú, hvert fer þú

1 Minn Herra Jesú, hvert fer þú?
Ei hryggur þarf ég spyrja nú,
ég veit þú fórst til föður heim
og fagna nú af boðskap þeim.

2 En hins má spyrja: Hvert fer þú
sem heyrir raust þíns Drottins nú?
Hvort ferðast þú á ferli þeim
til föður þíns er liggur heim?

3 Ó, hvert fer þú, mitt barnið blítt
er brosir nú svo milt og hlýtt?
Ó, Guð veit hvar þín liggur leið,
hann leiði þig um æviskeið.

4 Og hvert fer þú sem hraðar þér
og hart í lífsins kappleik fer?
Ó, keppstu hnoss að höndla það
er himins dyrum leiðir að.

5 Og hvert fer þú sem langa leið
um lífsins hefur runnið skeið?
Ef röngum vegi ertu á,
tak aðra betri stefnu þá.

6 Þú maður, hvert sem hér þú fer
Guðs helgur andi fylgi þér
og hvar sem liggur leiðin þín
þig leiði Drottinn heim til sín.

T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Kempten um 1000 – Erfurt 1524 – Sb. 1589 – Weyse 1840 – PG 1861
(Komm, Gott Schöpfer, Heiliger Geist) / Kom, skapari, heilagi andi
Sálmar með sama lagi 141 193 401 91
Eldra númer 162
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Jóh. 16.5–10

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is