401. Til himins upp þig hef, mín sál ♥
1 Til himins upp þig hef, mín sál,
til himins fljúgi lofgjörð þín.
Upp, upp, mitt hjarta, hugur, mál,
með helgum söng því dagur skín.
2 Ó, Drottinn, náð þín dásöm er,
ó, Drottinn, hjartans athvarf mitt,
þú væran blund enn veittir mér
og vaktir enn þá barnið þitt.
3 Því skal, ó, Drottinn, dýrð þér tjá
í dag og jafnan sála mín,
þig lofi allt er anda má
og allt er blessar gæska þín.
4 Af öllu hjarta eg þig bið:
Æ, annast þú mig nú í dag,
af elsku þinni legg mér lið
og lát mér snúast allt í hag.
5 En ef þú sendir mæðu mér
svo mín af harmi stynur önd
gef mér þá eins að þakka þér
og þína blessa föðurhönd.
6 Æ, hjálpa þú mér, Herra minn,
svo helgi' eg gjörvallt líf mitt þér.
Mig ætíð styrki andi þinn
og allt sem gott er kenni mér.
7 Ég fel mig nú í faðminn þinn,
ég fel þér bæði líf og sál.
Æ, lát þér þóknast lofsöng minn,
þig lofi hjarta, raust og mál.