Sálmabók

561. Mitt höfuð, Guð, ég hneigi

1 Mitt höfuð, Guð, ég hneigi
að hjartað stíga megi
í bljúgri bæn til þín.
Lát heims ei glys mér granda
en gef mér bænaranda
og hjartans andvörp heyr þú mín.

2 Ég bið þig, faðir blíði,
um bót í lífsins stríði
í Jesú nafni nú.
Í hæðir hjartað mænir,
þú heyrir allar bænir
í Jesú nafni', í Jesú trú.

3 Og þótt ég öðlist eigi,
gef ei ég þreytast megi
sem best að biðja þig.
Þú einn veist tíma' og tíðir,
ég treysti því, um síðir
þú bænheyrir og blessir mig.

4 Og þótt ég öðlist eigi,
gef ei ég kvarta megi
né mögla móti þér.
Ég veit þú vilt hið besta
og víst ei lætur bresta
það neitt er getur gagnað mér.

5 Og þótt ég öðlist eigi,
gef ei ég hugsa megi:
„Mín bæn til einskis er.“
Þótt ekkert annað fái' eg,
í auðmýkt hjartans má eg
í von og trausti tengjast þér.

6 Sá andans andardráttur
sé óslítandi þáttur
á milli mín og þín.
Þá barnslegt hjarta biður
þín blessun streymir niður.
Ég fer til þín, kom þú til mín.

T Valdimar Briem – Sb 1886
L Heinrich Isaac um 1495 – Nürnberg 1539 – PG 1861
Innsbruck, ich muss dich lassen / Nun ruhen alle Wälder
Sálmar með sama lagi 237 375 394 424 547 640
Eldra númer 338
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is