Sálmabók

60. Í Rama heyrðist harmakvein

1 Í Rama heyrðist harmakvein
og hertekinna sorgarvein.
Þeir grétu sárt af sínum hag.
Við sama stendur enn í dag
því grimmdarstríð og styrjöld hörð
er stöðugt enn á vorri jörð.

2 Sem Heródes er heimurinn,
svo herradóm hann elskar sinn
að sakleysið og sannleikann
hann sviptir lífi nær sem kann
og til þess vald sitt viðhaldist
hann vill ef gæti deyða Krist.

3 Sem Rakel kristin kirkja þrátt
enn kveinar mædd og grætur hátt
þótt sjaldan böðla sverðin reidd
hún sjái nú og börn sín deydd
má hún þó óttast illan heim
því enn þá vill hann granda þeim.

4 Lát huggast, þú vor móðir mædd,
þótt margt þér ógni vert ei hrædd.
Þótt heimsins geisi bræði byrst
hans brögð og grimmd ei deyðir Krist.
Nei, Kristur lifir, vel þig ver
og vígi börnum þínum er.

5 Sem brúði sína hann þig heim
til himins leiða vill með þeim.
Þar sér þú börn þín særðu grædd
og sigurskrúða ljóssins klædd,
þar hræðir þig ei hætta nein
né harmadalsins Ramakvein.

T Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886
L Schumann 1539 – Sb. 1619
Vater unser im Himmelreich
Sálmar með sama lagi 189a 197 381 685 783a 99
Eldra númer 570
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Matt. 2.16–18, Jer. 31.15

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is