Í einum af textum þessa Drottinsdags, 6. sunnudags eftir páska, segir (Post.1.12-14):
„Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. Er þeir komu þangað, fóru þeir upp í loftstofuna, þar sem þeir dvöldust: Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum. María, móðir Jesú, var líka með þeim og bræður hans.“Post.1.12-14
Mikið er nú undursamlegt að fá þessi orð, þessi skilaboð með sér frá vígsludegi. Gefið þessum orðum gaum, kæru vígsluþegar, já, við skulum öll hugfesta þau. Þau lýsa því þegar uppstigningardagur var að baki og hvítasunnan framundan. Að baki voru 40 gleðidagar, þar sem hver stund, sérhver dagur var borinn uppi af návist hins upprisna Jesú.
Nú hafði ský numið hann frá sjónum þeirra, og óvissan og efinn lágu á næsta leiti er þeir fetuðu veginn ofan hlíðar Olíufjallsins í átt til Jerúsalem. Ætli nokkur mynd Nýja testamentisins eigi betur við OKKUR en einmitt þessi? Skyldi nokkur sunnudagur kirkjuársins lýsa betur stöðu okkar en dagurinn í dag, þegar uppstigningardagurinn er að baki og hvítasunnan framundan? Dagurinn sem lýsir því þegar páskarnir eru minningin ein, Kristur horfinn sjónum og trúin hefur ekkert við að styðjast nema minninguna og fyrirheitin, ORÐIÐ.
Og þessi minning, fyrirheiti, þetta orð leiddi lærisveinahópinn smáa ofan af Olíufjallinu og inn í loftsalinn, að borðinu þar sem þeir höfðu verið með Jesú angistarnóttina forðum, nóttina, sem hann svikinn var. Og þar sem þau höfðu setið óttaslegin bak við læstar dyr á páskadagskveldi þegar hann birtist þeim upprisinn með frið og fyrirgefningu, og óttinn vék fyrir gleði, efinn vék fyrir trú.
Nú safnast þau saman við þetta borð, um þessa minningu. Þau eru með einum huga stöðugir í bæninni, þeirri bæn, þar sem trúin spennir greipar um og rígheldur í minninguna um hjálpræðisverk Drottins og fyrirheit hans, þess Drottins, sem birti sjálfan sig í Jesú Kristi, og mun aftur birtast í dýrð.
Og þau bíða ekki bara og vona og halda krampataki í draum og orna sér við minningar um það sem var. NEI, þau brjóta brauðið og hefja upp bikar minninganna og fyrirheitanna - Þetta brauð og vín sem er ávöxtur jarðar og iðju mannanna, sem HANN blessaði og blessar, frelsarinn Kristur.
Þau þarna forðum fengu að sjá fyrirheitin rætast, fyrirheitin sem líf Jesú, orð og verk, dauði og upprisa og uppstigning birta. Þau fengu að reyna og sjá undur og stórmerki Hvítasunnunar. Það er okkur líka lofað. Þessvegna erum við hér. Þessvegna er kristin kirkja til og horfir fram til þess dags, þeirrar hátíðar þegar allt þetta verður augljóst og opinbert, þetta, sem trúin skynjar innri augum: Jesús Kristur og kærleikur hans, fyrirgefning syndanna og lífið eilífa.
Trúin á Jesú, lífið í hans nafni er hulin, en væntir sín. Á meðan heimurinn heldur því fram að það sé ekkert annað en þetta sem dagsins önn snýst um, þessi grátlega tilviljun, þessi kalda gröf og gleymskunnar gráa djúp - og hugsun manns og hjarta verði að venjast tilhugsuninni um guðlausan himinn, vonlausa veröld og tilgangslaust líf. Einmitt þar vinnur trúin sinn stærsta sigur. Það er EKKI þegar hún horfir til himins á Uppstigningardag. Það er Ekki þegar hún brennur í gný og andans stórmerkjum Hvítasunnunnar, HELDUR þegar hún er einum huga stöðug í bæninni og samfélaginu, heldur fast í minningarnar og fyrirheitin, þegar ekkert er til að staðfesta það nema ORÐIÐ á bókinni öldnu, brauð og vín á altari, vatn í skírnarsá, upp og ofan veikburða viðleitni til að lifa í samræmi við kærleiksboð Krists og vinna verk mildi hans, fyrirgefningar og friðar, og biðja fyrir heiminum með himininn fyrir augum og fagnaðarerindið í huga og minni.
Undur hvítasunnunnar hefði aldrei orðið án þeirrar bænar, samfélags, trúfesti sem þarna var fyrir hendi dagana döpru og daufu eftir uppstigningardag. Og það er alveg áreiðanlegt að það verður engin endurnýjun, ekkert vor, engin hvítasunna í lífi okkar, já, í lífi þjóðar og kirkju, manns og heims, án þeirrar trúar, vonar og kærleika, sem er með einum huga stöðug í bæninni.
Helgar og hátíðir hafa bliknað í vitund almennings, vissulega. En þær mæta okkur samt enn og aftur. Uppstigningardagur gengur hljótt um garða, og hvítasunnan þokar æ meir út úr myndinni. En kirkjan heldur í minninguna og fyrirheitið, og þá iðkun og upprifjun sem heldur því við og agar trúfestina og þolgæðið og rifjar upp söguna og setur fram vonina og sýnina um himinn og jörð sem andi Guðs lífgar og læknar. Og þess vegna á lífið sér von, heimurinn á sér framtíð, hatrið og heiftin mun lúta í lægra haldi, ógnin og ofstækið, græðgin og fýsnin og valdið munu ekki hafa síðasta orðið. Kristur sigrar, kærleikskrafturinn hljóði. Framtíðin er hans. Í guðsþjónustu helga og hátíða er kirkjan sýnileg, í iðkun og athöfn orðs og sakramenta sem presturinn er frátekinn til að annast, er kristinn siður sýnilegur. Þjónusta kærleikans, sem djákninn er sérstakt tákn og áminning um, er yfirleitt hulin, en allt um það lífsnauðsynleg kristinni trú og sið. Trú sem verkar í kærleika, trú sem borin er uppi af umhyggju, virðingu og auðmjúkri þjónustu við náungann.
Þið, kæru vígsluþegar, til hamingju með þennan dag, þennan fagra dag fyrirheita og bjartra vona. Ég veit að í hugum ykkar er innst og dýpst þökk og mikil gleði og eftirvænting. Þökk góðum Guði og góðu fólki sem leiddu ykkur til þessarar stundar, gleði yfir því að vera falið heilagt hlutverk í hinni vígðu þjónustu. Eftirvænting til þess sem bíður ykkar. Héðan gangið þið út til verkefna og skyldustarfa á akrinum. Við fögnum ykkur, gleðjumst með ykkur og gleðjumst yfir ykkur, góðu vinir. -
Guð einn veit hvaða dagur er mestur, hvaða hátíð er hæst, en núna, á þessum Drottinsdegi er okkur gefið fyrirheiti um hátíð og sigur og eilífa blessun. Það felst í þessu látleysi og einfaldleika, hlýðni og þolgæði, sem lýst er í texta dagsins, þar sem nöfn þjónanna og vinanna eru talin upp og segir svo: „Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni.“ Veri þar meðtalin nöfnin okkar, þitt og mitt, og þessi verða lýsing á lífi þínu og mínu, safnaða okkar og kirkju í frelsarans Jesú nafni. Amen.
Prédikun við djákna og prestsvígslu 23. maí 2004. 6.sd. eftir páska. Vígð: Dagný Guðmundsdóttir, djákni, og cand.theol. Gunnar Jóhannesson.