Skömmu síðar bar svo við, að Jesús hélt til borgar, sem heitir Nain, og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið, þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: Grát þú eigi! Og hann gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp! Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans. En ótti greip alla, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: Spámaður mikill er risinn upp meðal vor, og Guð hefur vitjað lýðs síns. Og þessi fregn um hann barst út um alla Júdeu og allt nágrennið. Lúk. 7.11-17
Guðspjallið frá því að líkfylgd fór um borgarhlið Nain. Dauðinn hafði sótt heim hús eitt þar, og ekki fyrsta sinn sem hann hafði verið þar á ferð. Þannig er það nú einatt að ekki er ein báran stök. Þung voru spor ekkjunnar eftir líkbörum einkasonar sín, þung voru spor og þung var sorg vina og granna í líkfylgdinni. En á móti kemur önnur fylking. Þar er líka einkasonur móður sinnar á ferð, umvafinn stórum hópi vina. En þar er gleðin í för, vonin, framtíðin, lífið.
Svo mætast þau þarna, Kristur og ekkjan, móðirin harmþrungna. Og þá segir Lúkas, guðspjallamaðurinn þessi orð: “Þegar Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: Grát þú eigi.” Þótt þessi orð séu svona blátt áfram þá eru þau eitt hið mikilvægasta sem sett hefur verið á blað í gjörvallri sögu manns og heims. Hversvegna? Vegna þess að þetta er vitnisburður um máttinn æðsta, Drottin Guð. Að Hann sér og skilur. Og hann snýr lík-fylgd og harma upp í lífs- fylgd og vonar.
* * *
Sagan af syni ekkjunnar frá Nain er meistaralega sögð, næm, tilfinningaþrungin, jarðnesk og ekta, tær, himnesk og fersk. Ekkjan hafði misst allt sitt, son sinn og fyrirvinnu, von sína, ást og gleði. Jesús kemur þar að og “kenndi í brjósti um hana” segir sagan. Orðið á frummálinu er afar sterkt, splagchízomai, það er tilfinningin sem grípur um dýpstu hjartarætur, þannig tjáir læknirinn Lúkas hina takmarkalausu samlíðan sem Guð finnur til gagnvart sköpun sinni, sem líður undir grimmum skapadómi syndar, þjáningar og dauða.
Annað samhengi sem við finnum þetta sterka orð, sem þýtt er sem að “kenna í brjósti um” er í frásögunni, sem lesin var hér áðan, eins og jafnan við vígslur, frásögnin af því “þegar Jesús sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um hann því þeir voru eins og sauðir sem engan hirði hafa.” Orðasambandið að “kenna í brjósti um” hefur ef til vill í hugum okkar keim tilfinningasemi, jafnvel væmni. En á frummálinu er það aflmikið orð, sem tengist sársauka og jafnvel reiði. Jesús kenndi í brjósti um hrjáðan mannfjöldann og hann kenndi í brjósti um ekkjuna, en hann lét ekki þar við sitja. Hann gekk til atlögu við meinið, réðist að rótinni, ógnarmætti syndar og dauða. Og gaf okkur þar með afl og mátt til að takast á við það í sérhverri mynd, og hjástoð sína til að sigra það allt.
* * *
Um þessa helgi er víða um heim eru haldnar bænavökur í kirkjum og heimilum til að biðja fyrir fórnarlömbum mansals. Er það að frumkvæði Hjálpræðishersins, sem gjarna er í fremstu víglínu í baráttu umhyggju og kærleika. Mansal er ef til vill fjarlægt huga okkar, en er vaxandi vandi í heiminum og teygir anga sína æ víðar. Hér er um að ræða alþjóðleg viðskipti velta milljörðum bandaríkjadala. Milljónir manna, aðallega konur og börn, en líka ungir drengir, eru neydd inn í heim vændis og kynlífsþrælkunar. Margir láta heilla sig með góðum atvinnutilboðum og möguleika á menntun, en raunveruleikinn sem þau mæta er ánauð og ofbeldi. Við þurfum að gefa þessu gaum, umfram þá skammvinnu stundarathygli sem einstaka frétt fær, við þurfum að kenna í brjósti um og finna til og biðja fyrir. Og við þurfum að láta samlíðan og fyrirbæn vekja okkur til viðbragða í andófi gegn þessari glæpastarfsemi og því siðleysi sem birtist í klámvæðingu, kynlífsdýrkun, og -fíkn og ofbeldi og skefjalausri mannfyrirlitningu, sem leitast við að móta menningu okkar og lífssýn og samfélag allt.
Hver kennir annars í brjósti um í samtíð okkar, erum við ekki umfram allt upptekin af því aðflýja sársaukann, erum við ekki umfram allt upptekin af því að leita málsbóta, skýringa, skilgreininga? Hver finnur til með börnum og unglingum á Íslandi í dag, í þeim flókna og ögrandi heimi sem þau búa við? Hver lætur sig hag þeirra og líðan varða, já, og hver er tilbúinn að nema staðar og gefa þeim tíma, veita leiðsögn, hjálp og lið? Við sem kölluð eru til fylgdar við Krist þurfum að beina athygli samtíðar og samfélags á nauðsyn siðgæðislegra forvarna og andlegrar umhverfisverndar sem felst í samfylgdinni við hann sem tók á sig synd heimsins og sigrar dauðann, og vill virkja og væða konur og karla til þeirra viðbragða og verka sem lækna og reisa upp.
Kirkja Krists er samfélag í trú og gleði. En um leið samfélag sem kallað er til að kenna í brjósti um, finna til með, nema staðar þar sem sorgin ríkir, og vonbrigðin setjast að, og hvar sem brotinn berst og fellur, og rétta út hönd til hjálpar. Kærleiksþjónusta kallast það, trú í verki, trú sem birtist í samlíðan, umhyggju, miskunnsemi, sem framlenging orða hans og líknarverka sem stöðvaði líkfylgdina í Nain forðum og sneri gráti í gleðiraust.
* * *
Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni yfir því áræði og djörfung sem ráðning skóladjákna og prests í Garðaprestakalli lýsir, og stuðningi skólayfirvalda og einkaaðila við að gefa kost á sálgæslu, forvarna og kærleiksþjónustu fyrir nemendur grunnskólanna samkvæmt hinni svokölluðu “vinaleið”. Öllum sem aðild eiga hér að óska ég hjartanlega til hamingju með það. Við munum fylgjast grannt með því hvernig til tekst, og bera ykkur á bænaörmum okkar.
Söfnuði og sóknarpresti Vestmannaeyja samgleðst ég yfir nýjum liðsmanni og hirði. Já, kirkjan fagnar ykkur, kæru vígsluþegar, og væntir mikils af ykkur. Kröfuharður er vettvangurinn sem þið gangið út á sem prestar og djákni. Að athöfn hér lokinni munið þið ganga fram og út í sólskinið, og söfnuðurin allur fylgir á eftir ykkur. Það er táknrænt. Með krossinn í fararbroddi haldið þið út í heiminn til að mæta því sem að höndum ber í fylgd lífsins og vonarinnar. Það er árétting þess að til móts við líkfylgd og sorgarmars vonleysisins og dauðans, er fólk á ferð í fylgd Drottins Jesú á leið til lífsins. Það er lífs- fylgd vonar og framtíðar. Þar er virðing og trúfesti, þar er smitandi, læknandi friður og náð. Kristin kirkja kallast sú ganga, sú ferð. Ekki fer mikið fyrir þeim hópi, þeirri göngu, lífsmörkin og lífefnin vekja oftast síst athygli í glysi og glaumi og kastljósum dagsins. Flestir vildu þó væntanlega vera þar með í för þar sem huggunin er virk, og gleðin grómlaus og fólk leitast við að gera hvert öðru gott og stuðla á sinn látlausa, hógværa hátt að því að vonin skjóti rótum og umhyggjan birtist í verki og lífið og heimurinn verði sú undursamlega jörð og góða og lífseflandi samfélag sem við þráum og Guð ætlast til. Kristur á sér marga bandamenn á vettvangi dagsins. Ykkar hlutverk er meðal annars að veita þeim athygli, uppörvun og lið, og laða þá að lindunum lífsins sanna.
Guð launi og blessi þau sem kalla ykkur til samstarfs, veri hann í verki með þeim og ykkur og kirkju sinni. Þið eruð ekki ein. Kirkjan á Íslandi á yfir miklum mannauði að skipa. Í lífs-fylgd lausnarans er hann umluktur alls konar fólki sem laðast hefur að ljósinu hans. Eins og þið. Það er óumræðilegt þakkarefni. Megi það ljós laða, leiða, lýsa og verma og ummynda allt.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen