Gleðidagar

Gleðidagar

Við getum sjálf ráðið nokkru um hvað það er sem hefur mest áhrif á hugarfar okkar og framgöngu. Miklum við það sem er gleðilegt og gott eða miklum við það sem miður fer?
Mynd

Flest kvöld í rúma tvo áratugi hef ég átt samtal við barn fyrir svefninn um daginn sem er að kveðja. Eitt barn hefur tekið við af öðru, stundum tvö í einu. Hvað var skemmtilegt og hvað var leiðinlegt? Hvað var gott og hvað var vont? Best og verst, köllum við þetta samtal stundum. Þarna fáum við tækifæri til að eiga trúnaðarstund, mamman og barnið. Þarna fæ ég að vita ýmislegt sem stutta svarið við spurningunni: Hvernig var í skólanum? segir fátt um. Þarna get ég miðlað veruleika foreldralífsins í mildum búningi eftir aldri barnsins, að sumt sé líka mömmum erfitt. Og þarna gefst okkur kostur á að finna sátt í nærveru Guðs, biðjast fyrirgefningar og veita hana, ef einhver skuld er útistandandi eftir samskipti dagsins. Við látum ekki sólina setjast yfir reiði okkar (Ef 4.26). Við veljum að skulda ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað (Róm 13.8).

Gleðiefnin eru líka mikilvæg í kvöldhjalinu. Stundum er erfiðara að setja nákvæm orð á þau heldur en það sem fór úrskeiðis. „Það var bara allt svo gaman!“ Engin ástæða er til að rengja það og auðvitað þakkarefni að slíkir dagar séu til. En við æfum okkur í að finna orð yfir það sem gladdi okkur, var skemmtilegt, gekk vel. Litlu hlutirnir skipta líka máli og þetta sem alltaf gerist, til dæmis að við burstum í okkur tennurnar (hvernig getur það verið gleðiefni?) og getum farið út að leika okkur. Hláturstundin þegar við köstuðum græna boltanum á milli okkar og hundurinn tók þátt í æsingnum með gelti og látum getur verið hápunktur dagsins.

Eftir spjallið, sem oftast tekur bara örfáar mínútur, felum við hvort tveggja kærleika Guðs, það sem var best og það sem var verst. Þau sem voru okkur sérlega góð þann daginn, nú eða sérlega snúin, nefnum við með öllum hinum sem liggja á okkar bænahjarta og endum með söng eða gömlu góðu kvöldbænunum. Faðir vor og signingin eru líka á sínum stað. Þannig getum við lagt daginn að baki eftir að hafa gert hann upp og sofnað með sátt í hjarta. „Bless dagur, velkomin nótt og nýr morgun.“

Í lífinu skiptast á dagur og nótt, skin og skúrir. Að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma, að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma, segir Prédikarinn (3.1.). Okkur gengur misvel að koma auga á það sem er gott og leyfa því að lita líf okkar. Kannski hlæjum við of lítið, dönsum of lítið? Einu sinni setti ég mér það markmið að syngja, dansa og hlæja með börnunum mínum á hverjum einasta degi. Mikið væri nú gaman að dusta þétt ryklagið af því markmiði núna!

Stundum erum við duglegri við að nefna það sem er miður gott. Okkur hættir til að mikla hlutina fyrir okkur, velta okkur upp úr því sem fór úrskeiðis, nú eða því sem gæti hugsanlega farið úrskeiðis. Við gleymum að við lifum bara þetta augnablik. Það sem er liðið, það er liðið. Og hvernig sem við reynum getum við ekki tekið forskot á framtíðina. Við þurfum að gefa okkur tóm til að tengjast því sem er núna. Það getur auðvitað verið alls konar. Það sem er gleðilegt og það sem vekur depurð á sér stað, er hvort tveggja hluti af lífinu. Hvort tveggja er leyfilegt og líklega nauðsynlegt að kannast við. En við getum sjálf ráðið nokkru um hvað það er sem hefur mest áhrif á hugarfar okkar og framgöngu. Miklum við það sem er gleðilegt og gott eða miklum við það sem miður fer? Getum við brosað í gegn um tárin?

Svo er lífið oft bara svona mitt á milli, hvorki né. Kannski er það oftast þannig, ekki síst þegar við þvælumst í gegn um dagana meðvitundarlítið, án þess að taka eftir líðan okkar og annarra, án þess að vera vakandi fyrir því sem hvert augnablik færir okkur. Kristin trú vill rífa okkur upp úr þessum doða, benda okkur á uppsprettu lífsins, hjálpa okkur að tengjast Guði sem ER lífið, Guði sem gefur okkur mennskuna í Jesú Kristi, Guði sem í nærveru sinni veitir meiri gleði en nokkuð annað. Til þess höfum við meðal annars mismunandi takt í trúarlífinu. Fastan, sem nú er liðin, er tími kyrrlátrar íhugunar þar sem við fetum okkur nær því sem býr innra með okkur, finnum kannski til undan því á köflum, en það er allt í lagi því nærvera Guðs er með okkur í dýpinu. Og nú eru gleðidagar trúarlífsins, allt frá páskadegi til hvítasunnu, gleðidagar vegna þess að lífið hefur sigrað, lífið sigrar og lífið mun sigra. Lífið sigrar dauðann innra með okkur, lífið sem feykir burt doða og drunga, lífið sem gerir okkur kleift að gleðjast og fagna jafnvel í þrengingum (Róm 5.3).

Kæru samborgarar. Látum ekki áhyggjur og kvíða yfirbuga okkur þó farsótt herji á. Leyfum gleðinni að blómstra í hjartanu, leitum uppi gleðiefnin, gerum gleðina mikla (Jes 9.2.). Gef sál þína eigi sorg á vald, angra ekki sjálfan þig á áhyggjum. Gleði í hjarta er mönnum lífgjafi, gleði manns fjölgar lífdögum (Sír 30.21-22). Nærvera Guðs gefi okkur þessa gleði í hjarta, gleði í smáu sem stóru, nærveran sem eykur stórum fögnuðinn (Jes 9.2.). Já, þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glöð á honum (Sálm 118.24). 

Pistillinn birtist sem hugvekja í Morgunblaðinu 15. apríl 2020